Hellnahellir
Lamba- og Hesthellir
Aðrir hellar á Hellum
Aðrir hellar á Íslandi

Forsíða - Hellarnir - Hellnahellir


Hellnahellir

Hellnahellir er lengsti manngerði hellir á Íslandi, u.þ.b. 50 metra langur. Hann er þó ekki einungis allur á lengdina því í Hellnahelli er víðast um 3-5 m lofthæð og álíka vítt á milli veggja. Hellnahellir virðist gróft á litið vera grafinn í þremur hlutum og hafa hlutarnir stundum verið nefndir Heyhellir, Gamlihellir og Göngin.

Á Hellnahelli eru tvær útgönguleiðir, ein í hvorum enda, en auk þess eru á honum fimm upphlaðnir strompar sem gerðir hafa verið til að hleypa birtu inn í hellinn og/eða til að hleypa út reyk frá eldstæðum.

Hellirinn er byggður inn í fjallshlíð Skarðsfjalls og liggur nægjanlega langt undir yfirborðinu til þess að í honum frýs ekki og þar helst hitastig raunar á nokkuð svipuðu róli allt árið. Hellismunnarnir eru yfirbyggðir og lokaðir og ekki er heimilt að fara þar um nema með leyfi landeiganda.

Uppruni

Ekki er vitað nákvæmlega hve gamall hellirinn er og verður það líklega aldrei vitað með fullri vissu. Sumir telja að hellirinn, eða a.m.k. einhverjir hlutar hans, muni vera frá tíð Papa, írskra munka, sem dvöldu hér á landi fyrir eiginlegt landnám Íslands, þ.e. að þeir hafi hoggið út hellinn og búið í honum. Sé það rétt að hellirinn sé í raun frá tímum Papa gerir það Hellnahelli um þúsund ára gamlan.

Hafi hellirinn ekki verið byggður af áðurnefndum Pöpum hefur hann í stað þess verið byggður af bændum einhverntíman á árabilinu 900-1332 en á síðarnefnda árinu kemur bæjarnafnið Hellar í Landsveit fyrst fram í rituðum heimildum. Hafa hellisbyggingar á Hellum þá verið a.m.k. fleiri en ein og þótt nógu merkilegar til að nefna eftir þeim bæinn. Hver tilgangurinn með byggingunni hefur verið fer þá mikið eftir byggingartímanum en því seinna sem hann hefur verið grafinn má kannski telja ólílegra að hann hafi verið hugsaður sem mannabústaður. Efast má svo á hinn bóginn um að svo vandlega hafi verið hugsað fyrir strompum upp úr loftinu ef tilgangur hellisins var ekki annar en að hýsa skepnur, hey eða matvæli sem ekki hefðu talist þurfa á sérstakri birtu að halda og þaðan af síður reykspúandi eldstæðum.

Í hellinum hafa því miður engar fornleifar fundist sem stutt geta kenningar um uppruna hans á einn veg eða annan. Víst er þó að Hellnahellir er alfarið gerður af mannahöndum, hogginn út í sandstein með frumstæðum verkfærum þess tíma er hann var byggður.

Hellnahellir opnaður

Fremri hluti Hellnahellis - Heyhellir - var lengi notaður af bændum sem heyhlaða enda fjóshlaðan byggð við hellismunnann og fjósið sjálft við hlið hennar. Aftari hlutinn - Gamlihellir - var á hinn bóginn nánast fulur af lausum sandi, í svo miklu magni að einungis var nægjanlegt pláss milli lofts og sandyfirborðs til að rétt væri hægt að skríða meðfram loftinu þ.e. ef svo ólíklega vildi til að einhver hefði löngun eða þor til þess að skríða þar um í myrkrinu.

Í kringum 1950 var í fyrsta skipti keypt að bænum dráttarvél með ámoksturstækjum og hófust bræðurnir Hlöðver og Áskell Magnússynir frá Hellum þá handa við að moka sandinum út úr hellinum. Rofið var gat í hellisvegginn til að ná sandinum út en að verkinu loknu var hlaðið uppí með hleðslusteinum og tyrft yfir. Fornleifar eða aðrir munir fundust ekki við opnun hellisins en hitt er annað mál að verkið var síður en svo unnð að hætti fornleifarannsakenda og því er ekki hægt að segja með fullri vissu að þær hafi engar verið þrátt fyrir það.

Óljóst er hvenær þessi aftari hluti Hellnahellis fylltist af sandi en líklegast er að það hafi gerst við skriðufall úr fjallshlíðinni ofan við hellinn. Þeim sem þetta ritar er ekki kunnugt um það hvenær það atvikaðist en nóg eru tækifærin því á þessum slóðum hafa oft í gegnum tíðina orðið stórir jarðskjálftar, bæði af völdum Suðurlandsskjálfta og Heklugosa. Fjallshlíðin ofan hellisins er hinsvegar afar vel upp gróin í dag og ber þess ekki nokkur merki að skriður hafi fallið á þessu svæði. Ljóst er því að mjög langt er um liðið frá því að þessar skriður féllu. Í Jarðabók Árna Magnúsonar og Páls Vídalíns frá árinu 1702-1714 er þess getið að skriður í fjallinu spilli túni og slægjum á Hellum og er það e.t.v. vísbending um þessar skriður en þar getur þó einnig verið um að ræða aðrar skriður á öðrum stöðum í fjallinu.

Við þessa umfjöllun um skriðufall ofan Hellnahellis má jafnframt bæta að þær hafa að líkindum stuðlað að betri varðveislu hellisins því þær hafa grafið hellinn lengra ofan í jörðina og ofan á hellinum er í dag víðast hvar nokkurra metra jarðvegslag. Þetta veldur því að hitastig í hellinum verður jafnara og honum verður síður hætt við vatns- og frostskemmdum.

Sönghellirinn

Eftir að kúabúskapur lagðist af á Hellum, í kringum 1982, hefur hellirinn ekki verið notaður sem heygeymsla. Hellirinn er nú til sýnis ferðamönnum en einnig hafa verið haldnar þar ýmsar skemmtilegar samkomur. Má þar nefna að í ágúst árið 2000 messaði biskup Íslands, sr. Karl Sigurbjörnsson, í Hellnahelli í tilefni af Kristintökuhátíð.

Einnig hafa verið haldnir í hellinum margskonar tónleikar og söngskemmtanir sem orðið hafa til þess að sumir þekkja Hellnahelli betur undir nafninu Sönghellirinn.

Kálfurinn sem týndist í Hellnahelli

Sú þjóðsaga fylgir Hellnahelli að einhverntíman í fyrndinni hafi kálfur álpast ofan í hellinn og týnst. Vinnumaður var sendur á eftir kálfgreyinu og gekk hann lengi vel í myrkrinu án þess að verða nokkurs vísari. Þegar maðurinn heyrði árnið yfir höfði sér varð honum þó ekki um sel og snéri til baka. Loksins er hann komst upp úr hellinum aftur, kálfslaus og sneyptur, leyndist hinsvegar gullsandur í skónum hans.

Af kálfinum er þá sögu að segja að skömmu eftir þetta heyrðist baul undarn hjónarúminu á Stóra-Núpi í Gnúpverjahreppi (í margra kílómetra fjarlægð frá Hellum og handan Þjórsár) og þegar betur var að gáð var þar kálfurinn kominn. Kálfurinn var við bestu heilsu og heill á húfi að því undanskildu að halanum hafði hann týnt einhverstaðar á leiðinni...

Sannleikskornin í þessu ævintýri eru líkast til nokkru færri en gullkornin í skóm vinnumannsins og því miður hafa ekki fundist í hellinum gullsandur, halaétandi skrímsli eða dularfullir afkimar. Þó er sagan e.t.v. vitnisburður um hversu mikið mönnum hefur á sínum tíma þótt til mannvirkisins koma og á það ekkert síður við enn í dag, þrátt fyrir samanburð við glæsimannvirki númtímans.

Skoða Hellnahelli

Hellar í Landsveit, Rangárvallasýslu, 851 Hella, sími: 487 6583