Hellnahellir
Lamba- og Hesthellir
Aðrir hellar á Hellum
Aðrir hellar á Íslandi

Forsíða - Hellarnir - Lambahellir og Hesthellir


Lambahellir og Hesthellir

Lambahellir og Hesthellir eru nokkuð svipaðir að stærð og tengdir saman með mjóum göngum, vel manngengum þó. Ekki er vitað hve gamlir þessir hellar eru en samkvæmt því sem nöfnin benda til hafa þeir lengst af verið notaðir til þess að hýsa skepnur.

Í Lambahelli er enn að finna u.þ.b. 5m garða (eða jötu) sem gengur eftir hellinum endilöngum, enda var ekki hætt að hýsa sauðfé þar fyrr en langt var liðið á tuttugustu öld. Brunnur er auk þess í hellinum svo ekki hefur verið vandkvæðum bundið að nálgast vatn fyrir skepnurnar. U.þ.b. tíu hlaðin þrep liggja niður í Lambahelli.

Hesthellir dregur nafn sitt væntanlega af veru hrossa í hellinum en hefur þó í manna minnum helst verið notaður sem hlaða og ekki eru sérstakar heimildir til um að hellirinn hafi verið notaður fyrir hesta eða önnur húsdýr. Aðgengi að Hesthelli er auk þess lítt ákjósanlegt fyrir hross því niður í hann liggja 10-12 hlaðin þrep, töluvert mjórri og brattari en þau sem liggja niður í Lambahelli. Erfitt er því að ímynda sér að hellirinn hafi verið notaður fyrir hross við núverandi umhverfisaðstæður og líklegt að lega landsins í kringum hann hafi verið önnur og lægri þegar og ef hross voru höfð í hellinum.

Eins og fram kemur í umfjöllun um Hellnahelli féllu fyrr á öldum skriður úr Skarðsfjalli niður á svæðið þar sem hellarnir eru staðsettir, og hafa þær grafið hellana töluvert dýpra í jörðu en þeir voru upphaflega. Telja má líklegt að engin þrep hafi legið að hellisopum Lamba- og Hesthellis á þeim tíma þegar þeir voru byggðir og að gengið hafi verið inn í þá nokkurn veginn af jafnsléttu. Aðgengi hrossa að hellunum væri við þær aðstæður afar auðvelt og jafnramt er það byggingarlega séð mun eðlilegra að landið hafi upphaflega hallað frá hellunum heldur en að, svo vatn rynni síður inn í þá.

Hlaðnir steinveggir eru beggja vegna þrepanna niður í hellana tvo og yfir þeim þak sem í dag kemur í veg fyrir að inn í hellana renni vatn og ver þá að öðru leyti fyrir ágangi veðurs.

Hellar í Landsveit, Rangárvallasýslu, 851 Hella, sími: 487 6583