Hellnahellir
Lamba- og Hesthellir
Aðrir hellar á Hellum
Aðrir hellar á Íslandi

Forsíða - Hellarnir - Aðrir hellar á Hellum


Aðrir hellar á Hellum

Kirkjur

Í hólnum neðan við bæinn á Hellum eru í brekkunni tvær dældir hlið við hlið sem bera örnefnið Kirkjur. Fremur augljóst er að Kirkjurnar eru rústir hella sem þarna hafa einhverntíman staðið en eru nú samfallnir.

Ekkert er vitað frekar um ástæður þess að þessar hellarústir bera jafn virðulegt nafn og þetta eða frá hvaða tíma þær eru. Nafnið gefur þó í skyn ýmsa spennandi möguleika sem velta má fyrir sér en ekki verður þó farið út í frekari vangaveltur um það hér á þessum vef a.m.k. ekki að svo stöddu...

Afkimi í Hellnahelli

Í Hellnahelli, rétt hægra megin við innganginn að Heyhelli er hlaðinn grjótveggur. Veggurinn nær ekki alveg til lofts og ef gægst er uppfyrir hann má sjá að loftið á hellinum nær þarna eitthvað lengra inneftir.

Svæðið handan veggjarins er í raun og veru fullt af sandi, svipuðum og þeim er áður fyllti Gamlahelli en þegar átti að moka honum burtu hrundi úr hellisveggjunum umhverfis svo hætt var við að fjarlægja sandinn og svæðinu þess í stað lokað af með grjóthleðslu.

Enginn veit hversu stór þessi afkimi á Hellnahelli hefur verið. Líklega er ekki um annað en smávegis útskot að ræða en kannski, bara kannski, er þarna að finna göngin sem kálfurinn villtist ofan í forðum!

Aðrir hellar?

Ekki er vitað um fleiri hella á Hellum en sagt hefur verið að hellarnir muni einhverju sinni hafa verið fleiri en þeir sem þekktir eru í dag. Hvort það er einungis óskhyggja full ákafs hellaáhugafólks er ekki gott að segja en þó er aldrei að vita nema einhver hellirinn liggi enn falinn undir gömlum skriðuföllum. Það væri nú óneitanlega afar spennandi að komast að því.


Hellar í Landsveit, Rangárvallasýslu, 851 Hella, sími: 487 6583