Forsíða - Rúningur 2009

15.07.09 - Rúningur 2009


Biggi og Bleikur - það er ekki oft sem nógu vel viðrar til að menn geti smalað hálfnaktirEins og vanalega var rúið á Hellum aðra helgina í júlí en sú helgi féll þetta árið á dagana 11.-13. Óhætt er að segja að veður hafi leikið við hvurn sinn fingur þessa helgi enda skein sól í heiði og hitastig u.þ.b. 18°C.

Margir voru mættir á staðinn strax á föstudagskvöldi og reis því fljótlega myndarleg tjaldborg á hólnum framan við bæinn. Þá var auðvitað gaman og glatt á hjalla en fólk fór þó í háttinn fljótlega eftir miðnættið til þess að hafa næga orku fyrir laugardaginn þ.e.a.s. smölunar- og rúningsdaginn. Töluvert af smala- og rúningsfólki bættist svo við á laugardagsmorgni ogvoru smalamanneskjur raunar svo margar að ekkimátti miklu muna til þess að þær gætu leiðst hönd í hönd yfir hagana (það eru kannski örlitlar ýkjur en þó ekki miklar!).Ekki var heldur verra að fá afnot af þrem reiðhrossum til aðstoðar við smölunina.

KvöldvakaSmölun var lokið um hádegisbil og eftir að allt liðið hafði etið kjötbollur og hrossabjúgu Margrétar í hádegismat var hafist handa við rúninginn sem gekk alveg fádæma vel þetta árið. Féð var auðvitað bæði skraufaþurrt og farið að losna ágætlega á því ullin, sem hvort tveggja auðveldar rúning til mikilla muna, en aðalatriðið var þó hve margar hendur, bæði stórar og litlar, sáu um rúninginn.

Þegar búið var að klippa síðasta reyfið af síðustu kindinni þurftu náttúrulega allir að skola af sér rollulyktina og skruppu þá nokkrir í sund á Laugalandi en sundfatalausir og aðrir sem ekki nenntu niðurúr sturtuðu sig bara heima á Hellum í staðinn. Það voru því einstaklega hreinar og snyrtilegar manneskjur sem borðuðu grillað lambalæri að hætti Gumma, Bigga-kartöflur og annað gómsætt meðlæti þegar líða fór á kvöldið - já og skemmtu sér síðan við leiki, spjall, söng og fleira fram á rauða nótt... Tvær góðar rúningskonur - Glódís og Jóhanna Guðgeirsdætur


Það var mál manna eftir þessa helgi að þetta hefði verið einhver sú langbesta smala- og rúningshelgi í langan tíma þar sem allt hjálpaðist að til að gera helgina og verkefni hennar sem skemmtilegast - ekki síst góð samvinna fjölda fólks og frábær félagskapur.

Bestu þakkir fyrir hjálpina og samveruna þið öll sem lögðuð hönd á plóginn (hehe, já eða þ.e.a.s. öllu heldur klippurnar og skærin). Við erum strax farin að hlakka til Rúnings 2010. Komið þið ekki örugglega öll aftur þá ??

 

Fleiri myndir frá rúningshelginni verða birtar fljótlega hér á vefnum...

Hellar í Landsveit, Rangárvallasýslu, 851 Hella, sími: 487 6583