Forsíða - Fréttir - Haustsmölun 2009

 

16.09.09 - Haustsmölun 10. október 2009

Laufin eru farin að fjúka af trjánum í stórum rennvotum bunkum sem vissara er að vera ekki fyrir þegar þeir lenda. Útilegudótið, tjaldvagninn og garðhúsgögnin eru aftur farin að taka of mikið pláss í bílskúrnum. Léttu sumarfötin eru komin í efstu hilluna í fataskápnum og vatnsheldu úlpurnar á snagana í forstofunni. Börnin eru ekki einungis byrjuð í skólanum heldur hafa líka, með yfirnáttúrulegum hætti, týnt húfunni, nýju tússlitunum og sunddótinu ekki sjaldnar en tvisvar sinnum það sem af er skólaárinu.

Já, það er komið haust og þessi atriði sem hér á undan eru talin eru aðeins örfá dæmi um staðreyndir sem algerlega er hægt að stóla á að fylgi því. Sem betur fer er nú samt sem áður sitthvað fleira sem hægt er að treysta á að gerist þegar haustið gengur í garð og eitt af því skemmtilegasta er auðvitað Haustsmölun á Hellum, því að smala kindum og sjá hvernig lömbin koma undan sumri er auðvitað eitthvað sem ekki er hægt að láta framhjá sér fara.

Haustsmölun fer fram á Hellum laugardaginn 10. október næstkomandi
Smalafólk er vinsamlegast beðið um að taka daginn frá, en lagt verður af stað til smölunar eigi síðar en stundvíslega kl. 10:00 á laugardagsmorgni. Vissara er því að mæta í tæka tíð til að missa ekki af neinu.

Ágætt væri ef þeir sem sjá sér fært að koma létu vita með því að hafa samband t.d. með því að skrifa í gestabókina hér á síðunni, á Facebook síðu Hellna í Landsveit eða einfaldlega með góðu og gamaldags símtali.

 

Þess má jafnframt til gamans geta geta að svo skemmtilega vill til að Helena Margrét Áskelsdóttir, Birgir Örn Hauksson og Elfar Davíðsson fagna samtals 70 ára afmæli sínu dagana um og í kringum þessa helgi og því er aldrei að vita nema þeir sem ná að smala nokkrum skjátum heim og sýna að því loknu einhverja teljandi hæfileika í því að aðgreina rollurnar frá lömbunum, verði svo heppnir að fá afmælisköku að launum...

Hellar í Landsveit, Rangárvallasýslu, 851 Hella, sími: 487 6583